Meistaraheppni segja sumir eftir að Þór/KA náði jafntefli gegn ÍBV á Hásteinsvelli í kvöld. Sannarlega voru Akureyringar heppnir að fá aðeins eitt mark á sig, eða kannski voru það leikmenn ÍBV sem voru svona óheppnir að skora ekki fleiri mörk. Alltént lauk leiknum með jafntefli 1:1 en ÍBV átti m.a. þrjú skot í stöng. Jafnteflið þýðir að vonir ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn fuku endanlega út um gluggann því enn munar sjö stigum á ÍBV og Þór/KA þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.