Karlalið ÍBV var ekki í miklum vandræðum með Þrótt í 1. deildinni í dag þegar liðin áttust við í Eyjum. Lokatölur urðu 41:34 eftir að staðan í hálfleik var 21:14. Ungir og efnilegir leikmenn léku stórt hlutverk hjá ÍBV í dag og skoraði Dagur Arnarsson, m.a. fimm mörk en þetta var aðeins annar leikur hans fyrir meistaraflokk. Meðalaldur liðsins var ekki ýkja hár í dag enda voru alls átta leikmenn úr 2. flokki í leikmannahópnum og ellismellurinn Sigurður Bragason var ekki á skýrslu í dag.