Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í vikunni, var m.a. rætt um Létti, hinn margfræga bát, sem þjónað hefur Vestmannaeyjahöfn um tugi ára. Ljóst er að fara þarf í mjög kostnaðarsamar viðgerðir á bátnum eigi að nota hann áfram. Það sé hinsvegar ljóst að miðað við aldur hans sé hæpið að það borgi sig. Léttir er tæplega 10 metra langur, rúm 8 tonn og með 99 hestafla vél. Hann var smíðaður í Svíþjóð árið 1934 og hefur alla tíð verið í þjónustu Vestmannaeyjahafnar. Hann var aðalhafnsögubátur Vestmannaeyjahafnar þar til gamli Lóðsinn kom árið 1960. Léttir hefur því marga ölduna sopið.