Á föstudaginn kl. 13.00 opnar Ásmundur Friðriksson myndlistarsýningu í Baldurskrónni við Heiðarveg. Við það tilefni kynnir hann einnig nýja bók eftir sig, Ási grási í Grænuhlíð, Eyjapeyi í veröld sem var. Í bókarkynningu segir Ási: „Það er misjafnt hvað maður man frá æskuárunum og oft spurning hvort minningarnar eru manns eigin, endursögn annarra, draumur eða ímynd. Sumt hefur verið lagað í huganum en það vill gleymast sem ekki var jafn gott og hitt sem betur fór. Þannig verða færri baggar sem þarf að burðast með á göngunni í gegnum lífið. Sá ljómi sem hvílir yfir bernsku minni og uppeldi er grunnurinn að þessum minningabrotum sem hér eru sett í letur. Það er fótur fyrir öllum sögunum sem hér eru sagðar.