Síðasta goshrinan í Heimaeyjargosinu stóð yfir í aðeins nokkrar mínútur þann 26. júní. Þann 3. júlí 1973, tilkynnti Almannavarnanefnd að gosinu væri lokið með eftirfarandi tilkynningu; „Að mati sérfræðinga og vísindamanna er það staðreynd, að gígurinn er lokaður og gosvirkni í fellinu hætt. Þar sem ekki er hins vegar enn laust við gasmengun í miðhluta bæjarins, einkanlega á svæði vestur af Heiðarvegi, upp að Hásteinsvegi, Hvítingavegi og Birkihlíð, eru því þeir, sem hug hafa á að setjast að á umræddu svæði, beðnir að hafa samband við Almannavarnanefnd Vestmannaeyja í síma 99-6911 eða 99-6912 og fá þar upplýsingar um ástand með tilliti til gasmengunar. Nefndin vill jafnframt ítreka að foreldrar láti ekki börn sín vera fylgdarlaus á umræddu svæði.“