Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var hins vegar um pústra án þess þó að kærur liggi fyrir.
Að morgni föstudagsins 19. desember sl. var lögreglu tilkynnt um að farið hafi verið inn í hús við Bröttugötu og þaðan stolið úlpu sem í var eitthvað af verðmætum. Böndin bárust fljótlega að tveimur mönnum í kringum tvítugt og voru þeir handteknir skömmu síðar. Annar þessara manna var reyndar í úlpunni sem var stolið, þegar hann var handtekinn. Mennirnir, sem voru undir áhrifum áfengis, voru vistaðir í fangageymslu þar til víman rann af þeim. Við yfirheyrslu síðar sama dag viðurkenndu þeir að hafa farið inn í húsið en kváðust hafa farið húsavilt. Sá sem var í úlpunni kvaðst hafa tekið úlpuna í misgripum.
Ein kæra liggur fyrir vegna brota á áfengislögum en um var að ræða ungan mann sem hafði verið til vandræða á einum af skemmtistöðum bæjarins, sökum ölvunar. Honum var í komið til síns heima og varð ekki til frekari vandræða.
Síðdegis þann 19. desember sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys um borð í Sighvati Bjarnasyni VE þar sem skipið lá við bryggju í Friðarhöfn. �?arna hafði starfsmaður Skipalyftunnar runnið þannig að hann datt aftur fyrir sig. Kvartaði hann yfir eymslum í fæti, en talið er að hann sé lærbrotinn.
Ein kæra liggur fyrir vegna brota á umferðarlögum en um er að ræða ólöglega lagningu ökutækis.
Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega þar sem mjög hált er á götum bæjarins. Einnig eru gangandi vegfarendur hvattir til að fara varlega og minntir á að bera endurskinsmerki eftir að skyggja tekur.
Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Vestmannaeyjingum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.