Skip Ísfélagsins, Sigurður VE og Heimaey VE, fóru um helgina frá Eyjum til loðnuveiða við norðaustanvert landið. Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunarinnar, er einnig á leið á miðin til loðnuleitar. Menn binda vonir við að vertíðin í ár verði betri en sú síðasta sem var varla svipur hjá sjón. Aflinn sem kom að landi í fyrra nam einungis 18% þess sem var árið á undan og var sú vertíð ekki í líkingu við það sem best getur orðið.
Hjá Vinnslustöðinni og Hugin ætla menn hins vegar að bíða í rólegheitum eftir frekari fregnum af loðnu áður en haldið verður til veiða. Bæði fyrirtæki eiga eitthvað eftir af síldarkvóta og stefnt er að því að ljúka þeim veiðum fyrst.