Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í gær var tekin fyrir ósk ÍBV íþróttafélags um gjaldfrjálsan aðgang að sundi fyrir gesti félagsins á handboltamótum sem haldin eru í Eyjum. Í fundargerð segir að Vestmannaeyjabær leggi þegar til gjaldfrjálsan aðgang í sund fyrir mótsgesti á Shell- og Pæjumóti sem og fyrir leikmenn meistaraflokka karla og kvenna. Sé gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun bæjarins. Að auki leggi Vestmannaeyjabær til töluverðan aukakostnað í mannahaldi og annan kostnað vegna mótanna.
Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkir ekki frekari niðurgreiðslur vegna móta á vegum ÍBV íþróttafélags og bendir á að félaginu stendur til boða aðgangur fyrir mótsgesti á lægstu kjörum.
Í frétt Eyjafrétta í gær var þessu snúið á haus og sagt að verið væri að sækja um aðgang fyrir gesti á Pæjumót og Shellmót en umsóknin á við fólk sem kemur hér á fjölmenn handboltamót ÍBV sem haldin eru á veturna.