Strákarnir okkar í 3. flokki karla í handbolta taka á móti HK-ingum á morgun. Um er að ræða undanúrslit Íslandsmótsins í 3. flokki karla. ÍBV hefur sigrað alla heimaleiki sína á leiktíðinni og á morgun verður vonandi engin breyting á því.
Leikurinn hefst klukkan 13:30 en við hvetjum alla sem hafa tök á, til þess að mæta á leikinn sem verður í gamla sal Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja.
ÍBV endaði í 2. sæti 1. deildar í 3. flokki en HK í því 3. ÍBV vann báða leiki sína gegn HK-ingum, þann fyrri með fjórum mörkum og þann seinni með tólf mörkum. Sæti í úrslitaleiknum bíður sigurliðsins en sá leikur verður þann 1. maí í Kaplakrika.
Stuðningur á yngri flokka leikjum félagsins hefur verið frábær síðustu ár en á morgun er mikil þörf á stuðningi. Strákar fæddir 1997 og 1998 skipa flokkinn en í fyrra urðu strákarnir fæddir 1998 bikarmeistarar. Árið áður urðu þeir Íslandsmeistarar, þeir eru hungraðir í fleiri titla en sú von gæti verið úti að loknum leik á morgun.
Í hinum undanúrslitaleiknum eigast Valsarar og Haukamenn við í Vodafone-höllinni. Sá leikur fer fram næsta þriðjudag en það verður fróðlegt að sjá hvoru liðinu ÍBV mætir, fari þeir í úrslitaleikinn. Valsarar urðu bikarmeistarar fyrr á árinu eftir sigur á ÍBV.
�?að verður boðið upp á skemmtiatriði í hálfleik en ekki hefur fengist staðfest hver þau verða. Við hvetjum fólk til að mæta tímanlega því stúkan á það til að fyllast á leikjum ÍBV.