Samninganefnd Drífanda stéttarfélags lýsir miklum vonbrigðum með að ákveðið hafi verið að fresta verkfallsaðgerðum þar til í lok maí. Yfirstandandi verkfallsaðgerðir höfðu mikil áhrif víða um land og einkum í Vestmannaeyjum og því er engin ástæða til að hverfa frá þeim. En í ljósi þeirrar miklu og góðu samstöðu sem ríkir meðal 15 félaga innan Starfsgreinasambandsins þá hefur Drífandi ákveðið að rjúfa ekki samstöðuna og fylgja félögum sínum um land allt.
Verkfallsbrot örfárra fyrirtækja í Vestmannaeyjum í skjóli eiganda þeirra er svívirða við starfsfólk fyrirtækjanna og raunar aðför að öllu vinnandi fólk í Vestmannaeyjum. Fyrirtæki sem hafa auðlindir þjóðarinnar að láni bera ríkari samfélagslega- og félagslega ábyrgð en önnur. �?líðandi er að þau séu að brjóta á vinnandi fólki og leikreglum á vinnumarkaði, í skjóli auðæfa er þau hafa eignast af vinnu þessa sama fólks.
Félagsmenn Drífanda eru að sýna ábyrgð með frestun verkfalla, og í fylkingu með vinnandi fólki um land allt að rétta fram sáttarhönd til Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn krefjast þess að tíminn sem vinnst með þessu verði nýttur til uppbyggilegra verka og gengið verði til samninga er tryggja verkafólki lágmarksframfærslu af vinnu sinni.
F.h. Drífanda stéttarfélags
Arnar G. Hjaltalín