Á þessu ári eru hundrað ár síðan íslenskar konur öðluðust kosningarétt. Stjórnendur Safnahússins í Vestmannaeyjum hafa verið iðnir við kolann það sem af er árinu að vekja athygli á gleymdum perlum meðal kvenna fyrri tíðar. Hver sýningin og uppákoman hefur rekið aðra og enn heldur veislan áfram. Í dag, hvítasunnudag klukkan 14.00 verður opnuð sýning á verkum Jóhönnu Jósefínu Erlendsdóttur sem lengstum var kennd við Ásbyrgi í Vestmannaeyjum.
Jóhanna var fædd árið 1888 í Reykjavík, dóttir hjónanna Ágústu Hólmfríðar Jóhönnu Gustavsdóttur Ahrens, og var þýsk í föðurætt, og Erlendar Árnasonar, trésmíðameistara sem var umsvifamikill byggingaverktaki í Reykjavík. Bróðir Jóhönnu var Einar Erlendsson, húsameistari ríkisins, og gerði hann einnig garðinn frægan í byggingarlistinni, teiknaði t.a.m. mikinn hluta þeirra húsa sem áður stóðu við Bankastræti í Reykjavík og standa sum enn.