Í síðustu viku kom fyrsta íslenska skemmtiferðaskipið, Ocean Diamond í Vestmannaeyjahöfn nokkra áratugi. Skipið kom við í Vestmannaeyjum í jómfrúarferð sinni en skipið á eftir að verða tíður gestur í höfninni þar sem skipið stefnir á að fara sjö hringi um landið í sumar en ferðirnar munu taka sex til tíu daga. Siglingarnar hófust frá Reykjavík 3. júní og hefur skipið viðkomu í níu höfnum og þaðan er farið í ferðir inn á landið. Skipið kemur við í Stykkishólmi, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Flatey á Skjálfanda, Seyðisfirði, Höfn,Vestmannaeyjum og Reykjavík.
Um borð voru 130 farþegar en alls getur skipið borið 224 farþega. Um hundrað eru í áhöfn en áhöfnin er erlend sem og ferðamennirnir þar sem Íslendingar eiga ekki kost á að fara í siglingar með skipinu. Í skipinu eru íslenskir leiðsögumenn og skemmtikraftar en einnig verður boðið upp á íslenskan mat um borð.
Við komuna á fimmtudaginn var embættismönnum frá Vestmannaeyjabæ boðið að skoða skipið auk þess sem stutt móttaka var um borð í skipinu þar sem skipst var á gjöfum, ljósmyndari Eyjafrétta var á staðnum og tók nokkrar myndir við tilefnið.