Í dag skrifuðu þær Díana Dögg Magnúsdóttir, Erla Rós Sigmarsdóttir og Sandra Dís Sigurðardóttir allar undir nýjan eins árs samning við ÍBV. Stelpurnar spiluðu allar á síðasta ári fyrir meistaraflokk ÍBV ásamt því að vera mikilvægur partur af unglingaflokki kvenna sem átti stórkostlegt tímabil og stóðu uppi sem bikar- og deildarmeistarar.
Erla Rós er fædd árið 1996 og var aðalmarkmaður ÍBV á síðasta tímabili og stóð sig mjög vel. Erla Rós byrjaði að banka á dyrnar hjá meistaraflokki tímabilið 2011-2012 aðeins 15 ára gömul. Erla Rós hefur síðan þá spilað stærra og stærra hlutverk í liði ÍBV og toppaði sig á síðasta ári. Erla Rós er handhafi Fréttabikarins í ár og hefur hún verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og nú síðast í u-19 ára landsliði kvenna þar sem hún spilaði með þeim í apríl í undankeppni Evrópumótsins.
Díana Dögg er fædd árið 1997 og er frábær Íþróttamaður en hún spilar bæði í meistaraflokk handbolta og fótbolta. Díana Dögg spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik í handbolta árið 2013 og skoraði 49 mörk það tímabil. Í ár var Díana Dögg mikilvægur partur af bæði meistaraflokki sem og unglingaflokki en Díana Dögg skoraði 94 mörk fyrir meistaraflokk. Díana Dögg var einnig valin efnilegust í meistaraflokki kvenna í ár. Díana hefur fastamaður í yngri landsliðum íslands og átt fast sæti í lokahóp frá því að hún spilaði með u-15 ára landsliðinu.
Sandra Dís er fædd árið 1996 og hefur verið að banka á dyr meistaraflokks kvenna síðastliðinn tvö tímabil. Sandra Dís var mikilvægur leikmaður í unglingaflokki kvenna sem eins og áður sagði var yfirburðar lið á síðasta tímabili. Sandra Dís hefur verið valin síðustu ár í alla úrtakshópa hjá yngri landsliðum Íslands í hennar aldursflokki, en Sandra Dís fór með landsliðinu á Evrópumót árið 2013 sem haldið var hér á landi.