ÍBV tók á móti Breiðablik í dag þar sem Blikar sigruðu örugglega 4-0 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 1-0 fyrir Breiðablik.
ÍBV byrjaði leikinn betur og strax á 6. mínútu leiksins fékk Sheneka Gordon dauðafæri eftir að hafa fengið sendingu frá Cloe Laccase en markmaður Breiðabliks gerði vel. Leikurinn róaðist aðeins um miðbik hálfleiksins en framan af hafði hann verið mjög fjörugur. Blikar komust svo yfir á 42. mínútu þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir skoraði en Andrea átti hörkuskot sem fór í leikmann ÍBV og í netið. Staðan 1-0 fyrir Breiðablik í hálfleik.
Síðari hálfleikur fór líka fjöruga af stað, aðeins voru liðnar fjórar mínútur af honum þegar Eyjastelpan Fanndís Friðriksdóttir kom Blikum í 2-0. Boltinn kom fyrir mark ÍBV en Bryndís Lára, markmaður ÍBV hélt ekki boltanum og missti hann beint í færturnar á Fanndísi sem skoraði. Blikar fengu svo vítaspyrnu eftir að Sabrína Lind Adolfsdóttir braut á Svövu Rós í liði Blika. Fanndís Friðriksdóttir tók vítaspyrnuna en Bryndís Lára varði vel í marki ÍBV. Sóley Guðmundsdóttir í liði ÍBV átti svo skot í þverslá eftir hornspyrnu.
�?riðja mark Blika kom á 73. mínútu þegar Fanndís Friðriksdóttir skoraði sitt annað mark, hún fékk góða stungusendingu inn fyrir vörn ÍBV og gerði allt rétt og lagði boltann snyrtilega fram hjá Bryndísi Láru. Fanndís var svo aftur á ferðinni á 89. mínútu þegar hún hamraði boltanum í netið og fullkomnaði þrennu sína. Lokatölur 4-0 fyrir Breiðablik.