Fótboltastjörnuleikurinn fór fram á Hásteinsvelli í hálfleik á leik ÍBV og Fjölnis. Leikurinn var hluti af fjáröflun hópsins vegna ferðar á leik í ensku úrvalsdeildinni sem stefnt er að því að fara í haust. Leikmenn liðanna fengu þó góða upphitun en þeir leiddu inn á völlinn leikmenn meistaraflokks ÍBV, því var mesti sviðsskrekkurinn farin úr hópnum.
Um 800 manns voru á leiknum og skemmtu sér konunglega. Yngvi Borgþórsson og Kristján Georgsson léku með liðunum en þjálfarar liðanna voru þeir Snorri Rútsson og Heimir Hallgrímsson en Heimi til aðstoðar var Júlíana Lagerback.
Leikurinn var æsispennandi, rauða liðið byrjaði betur og kom Stefán Róbertsson því yfir. Guðni Davíð Stefánsson jafnaði metin fyrir hvíta liðið og stefndi allt í spennandi leik allt til enda. Rauða liðið komst í 3-1 og skoraði Stefán Róbertsson öll mörk liðins. Hvíta liðið var ekki tilbúið að gefast upp og náðu að jafna metin rétt áður en lokaflautan gall með marki frá Guðmundi Grétarssyni.
Eftir leikinn var verðlaunaafhending þar sem Grétar �?ór Eyþórsson afhenti fyrirliðum beggja liða glæsilegan bikar og gleði leikmanna leyndi sér ekki. Frábært framtak sem vonandi er komið til að vera.