ÍBV tók á móti Keflavík í Vestmannaeyjum í dag þegar 18. umferð Pepsi deildar karla fór fram. Bæði lið þurftu virkilega á sigri að halda til að tryggja veru sína í úrvalsdeild að ári en svo fór að ÍBV hafði 3-0 sigur á andlausum Keflvíkingum.
ÍBV byrjaði leikinn af krafti og á fyrstu mínútum leiksins var Spánverjinn Sito búin að leika fram hjá varnarmönnum Keflavíkur og skaut í slá úr dauðafæri. Bjarni Gunnarsson fékk frákastið en skaut í varnarmann sem varði á marklínu. Jón Ingason átti svo frábært skot af 35 metra færi en boltinn skall í þverslánni og Eyjamenn óheppnir að vera ekki komnir yfir, en þeir þurftu ekki að bíða lengi því á 31. mínútu kom Ian Jeffs ÍBV yfir eftir skot beint úr aukaspyrnu. ÍBV bættu svo við öðru marki leiksins á 38. mínútu þegar Gunnar Heiðar �?orvaldsson skoraði úr vítaspyrnu eftir að Sito var felldur innan teigs. Keflvíkingar fengu svo dauðafæri í uppbótatíma fyrri hálfleiks en Eyjamenn vörðu á marklínu og staðan 2:0 í hálfleik.
ÍBV fengu nokkur færi í síðari hálfleik en náðu ekki að koma boltanum í netið, en það var svo á 73. mínútu sem þriðja markið kom. Hafsteinn Briem skoraði úr frákasti eftir aukaspyrnu sem Sindri, markmaður Keflavíkur, varði frá Jeffs. ÍBV spilaði virkilega vel í dag og skiluðu allir leikmenn sínu vel.