Georg á Bylgju VE færði safninu þennan urrara sem veiddist á um 40 faðma dýpi suður af Eyjum. Stöku sinnum hafa safninu verið færðir urrarar og hefur gengið mjög illa að halda þeim á lífi, því þeir virðast mjög viðkvæmir fyrir því að vera dregnir upp af einhverju dýpi. Sundmaginn belgist þá upp og þeir ná ekki að jafna sig á þrýstingsmuninum milli botnsins og yfirborðsins. �?essi virtist þó vera fljótur að jafna sig og vonandi lifir hann áfram því að urrarar eru mjög sérkennilegir og fallegir fiskar og gaman að hafa einn slíkan á safninu.
Urrarar eru botnfiskar sem lifa á grunnsævi í hlýjum og tempruðum höfum. Um 100 tegundir þeirra eru þekktar í heimshöfunum en aðeins ein tegund lifir við Ísland og er hann í hlýja sjónum undan suðurströndinni. Urrarar hafa sundmaga og geta gefið frá sér hljóð með hjálp hans og er nafn þeirra dregið af þeim eiginleika. Annað sérkenni þeirra er að þeir geta staulast um botninn á eyruggunum.
Vefsíða Sæheima greindi frá.