�?g man ekki eftir því að hafa lent í því áður að þurfa að leiðrétta tölur í greinum mínum og það alls ekki tvisvar sinnum eins og ég ætla að gera núna, en það er bara ágætt að vera svolítið mannlegur, en í grein minni skrifaði ég um að veiðigjöld vegna 100 tonn af þorski og 100 tonn af ýsu, væru liðlega 6,4 milljónir, sem er ekki rétt, heldur er upphæðin samkv. þeim tölum liðlega 3,2 milljónir, sem ég þarf hins vegar líka að leiðrétta.
En í dag frétti ég það, að ráðherra hefði breytt veiðigjöldum sem hingað til alltaf hafa verið miðað við slægðan fisk, yfir í blóðgaðan fisk sem þýðir að samtals talan er því nákvæmlega 3.852.000 krónur. Breytingin er sú að veiðigjöld á þorski 13,30 kr. kg. en verður núna 16,60 kr. kg. og á ýsu 18,19 kr. kg. en verður núna 21,92 kr. kg. Fyrir leiguliða þýðir þetta það, að fyrst þarf að borga eigendanum af kvótanum fyrir 1 tonn af þorski og 1 tonn af ýsu samtals ca. 400 þúsund eins og leigan er í dag og tveimur mánuðum seinna, tæplega 40 þúsund í veiðigjöld til ríkisins, á meðan eigandinn af kvótanum borgar ekki neitt.
Leiguliðinn þarf síðan að borga allan kostnað við veiðarnar, en miðað við verðin á mörkuðunum í þessari viku, þá er 1 tonn af þorski og 1 tonn af ýsu að skila rétt liðlega 600 þúsundum, þannig að ansi lítið er eftir handa þeim sem vinnur alla vinnuna og maður spyr sig, hvað ríkisstjórnin er eiginlega að hugsa með því að ráðast svona á sjómenn allt í kringum landið, því að sjálfsögðu mun þetta hafa áhrif á laun þeirra, og svolítið skrýtið að hugsa til þess að það eina sem heyrst hefur frá minnihlutanum á þingi, er að það þurfi að hækka veiðigjöldin. Greinilega fullt af fólki á Alþingi Íslendinga sem veit ekkert í sinn haus varðandi sjávarútveg .