ÍBV og Hapoel Ramat Gan mættust í síðari leik liðana í dag þar sem ÍBV sigraði leikinn sannfærandi 31-22 og samanlagt einvígið 56-43. Strákarnir eru komnir áfram í fyrsta sinn í Evrópukeppni og bíður verðugt verkefni í Portúgal þar sem þeir mæta Benfica í lok nóvember.
Gestirnir frá Ísrael byrjuðu leikinn betur og voru með þriggja marka forskot þegar átta mínútur voru liðnar af leiknum, Eyjamenn komust hægt og rólega inni í leikinn og á fjórtándu mínútu kom Andri Heimir Friðriksson ÍBV yfir í fyrsta sinn í leiknum. ÍBV var þá komið á gott skrið og Ísraelarnir áttu enga möguleika eftir það. Strákarnir voru að spila góða vörn sem skilaði sér í auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Staðan í hálfleik var 15-11.
Síðari hálfleikur var eign ÍBV, Hákon Daði Styrmisson kom þá inn á og skoraði hvorki meira né minna en sjö mörk úr átta skotum, frábær innkoma. Undir lok leiksins fengu yngri leikmenn liðsins að spreyta sig og var þá meðalaldur liðsins undir tvítugu, strákarnir stóðu sig virkilega vel og framtíðin sannarlega björt. Lokatölur leiksins voru 31-22.
Mörk ÍBV skoruðu þeir; Hákon Daði Styrmisson 7, Theodór Sigurbjörnsson 5, Andri Heimir Friðriksson 5, Grétar �?ór Eyþórsson 4, Einar Sverrisson 3, Kári Kristján Kristjánsson 2, Dagur Arnarsson 2, Páll Eydal Ívarsson 1, Nökkvi Dan Elliðason 1 og Svanur Páll Vilhjálmsson 1.
Kolbeinn Aron Arnarson varði 15 skot í marki ÍBV og Páll Eydal Ívarsson 1.