Árið 1915 var stigið það stóra skref í jafnréttisátt að konur fengu fyrst kosningarétt. Í ár eru því rétt 100 ár liðin frá því þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að kjósa hættu að vera forréttindi. Listvinir Safnahúss hafa minnst þessara tímamóta með margvíslegum hætti, hvort heldur er með einkasýningum eða samsýningum kvenna úr Vestmannaeyjum, sýningum á úrvali verka kvenna sem varðveitt eru á Listasafni Vestmannaeyja eða með samstarfi við aðra. Sem dæmi um vel heppnað samstarf má nefna farandsýningu Kvenréttindafélags Íslands þar sem starfsmenn Safnahúss í samstarfi við Sagnheima, byggðasafn og Kristján Egilsson minntumst jafnframt tveggja valinkunnra sómakvenna, þeirra Unu Jónsdóttur og Kristínar Magnúsdóttur.
Um Safnahelgi verður boðið upp á enn eina dagskrána, sýningu á listrænni afurð allt að 100 Eyjalistakvenna frá síðustu 100 árum. Einu skilyrðin fyrir þátttöku er að hafa eða hafa átt heimilisfestu í Vestmannaeyjum; vera kona og lána okkur á sýninguna einhvers konar listræna afurð. Um getur verið að ræða málverk eða teikningu, handavinnu hvers kyns, ljóð eða jafnvel gjörning. Í raun er best að fjölbreytnin fái sem mest að njóta sín, list og listsköpun er margháttar en meginmarkmið sýningarinnar er að draga fram þá fjölbreyttu og miklu listsköpun sem einkennt hefur og einkennir enn Vestmannaeyinga. Við viljum að Safnahúsið sé nú um Safnahelgina vettvangur allra kvenna úr Eyjum sem vilja deila listsköpun sinni með samfélaginu. Við opnun sýningarinnar, á föstudaginn 6. nóvember kl. 17, verður óvænt uppistand með aðkomu þekktustu listakonu Eyjanna. Jafnframt mun boðið upp á tónlistaratriði og fleiri gjörninga sem hluta af framlagi viðkomandi Eyjalistakvenna.
Um leið bjóðum við Listvinir Safnahúss, starfsmenn Safnahúss og Sagnheima, byggðasafns alla bæjarbúa hjartanlega velkomna á metnaðarfulla og fjölbreytta menningardagskrá sem haldin er víða um Vestmannaeyjar um komandi helgi. Við biðjum jafnframt alla þá, karla sem konur, unga sem eldri, að gefa sig á tal við okkur ef áhugi er á að taka þátt í hvers kyns uppákomum, kynningum, sýningum, verkefnum eða samstarfi þar sem menningararfur Vestmannaeyja er dreginn fram eða sköpunarkraftur samtíma Vestmanneyinga er virkjaður �?? okkur öllum til menntunar, uppbyggingar og gleði.
Velkomin á dagskrár Safnahelgi í Vestmannaeyjum.