�?að var rétt fyrir klukkan tvö að togskipið Frár VE kom til Vestmannaeyja með skipbrotsmanninn af smábátnum Brandi sem kviknaði í rétt austan við Bjarnarey um klukkan tólf. Að sögn skipverja á Frá voru þeir staddir innan við mílu frá Brandi þegar þeir sáu þeir reyk stíga upp af bátnum. Héldu þeir strax í átt að Brandi og var Gunnlaugur Erlendsson, skipverji á Brandi þá kominn í gúmmbjörgunarbát. Veður var gott en nokkur sjór og gekk vel að ná honum um borð. Var hann ómeiddur og alveg þurr.
Sjálfur segir Gunnlaugur að þetta hafi borið brátt að. Hann var úti á dekki þegar reykskynjari í stýrishúsi fór í gang. Um leið og hann opnaði hurðina að stýrishúsinu kom eldur á móti honum. Hann fór þá strax í að setja út björgunarbátinn sem gekk vel þó hann hafir verið nokkuð þungur. Greiðlega gekk að komast frá borði og taldi hann sig hafa verið í um 15 mínútur í bátnum þegar Frár kom og bjargaði honum.
Skipverjar á Frá sögðu að skömmu eftir að Gunnlaugur var kominn björgunarbátinn hafi orðið sprenging um borð í Brandi og varð framhlutinn alelda. Lóðsinn náði að slökkva eldinn og dró hann Brand í land. Er hann mikið skemmdur ef ekki ónýtur.
Allt fór þetta á besta veg sem má þakka réttum viðbrögðum Gunnlaugs og áhafnarinnar á Frá.