Aukinn viðbúnaður er í stjórnstöð Landsnets og viðgerðarflokkar eru í viðbragðsstöðu vegna ofsaveðurs eða fárviðris sem spáð er að gangi yfir landið síðdegis í dag og í kvöld.
Vegna óveðursins má búast við að truflanir geti orðið í raforkuflutningskerfinu víða um land síðdegis og í kvöld. Einkum á það við um Suður- og Suðausturland og síðar Norðaustur- og Norðurland. Á Austfjörðum er ísingarálag að auki sennilegt á línum í kvöld og fram á nóttina. Eins er vaxandi vindálag á línur í Vestfjörðum í kvöld og viðvarandi til morguns.
Talið er að þetta geti orðið versta óveður á landinu í aldarfjórðung en Veðurstofan spáir austan 20-25 metrum á sekúndu og snjókomu eða skafrenningi sunnanlands upp úr hádegi og síðan ofsaveðri eða fárviðri víða á landinu í kvöld, 25-35 metrum á sekúndu, með talsverðri slyddu eða snjókomu en rigningu syðst. Hiti verður um frostmark í kvöld, en 2 til 7 stig sunnan heiða. Spáð er suðaustan og austan 20-25 metrum á sekúndu með rigningu sunnanlands í nótt og á þá að draga smám saman úr veðurofsanum á Norður- og Austurlandi en áfram er spáð ofsaveðri víða norðvestan til á landinu. Gert er ráð fyrir sunnan og suðvestan stormi með rigningu eða slyddu þegar kemur fram á morgundaginn, en þá hægir og léttir til norðaustanlands og fer aftur kólnandi.
Vegna ástands raforkuflutningskerfisins eru viðbragðsáætlanir Landsnets viðamiklar en flutningskerfið, að suðvesturhluta landsins undanskildum, er takmörkunum háð og tenging milli landsvæða um byggðalínuna mjög veik.