Eins og fram kom í tilkynningu frá ÍBV Íþróttafélagi í síðasta mánuði voru kallaðir til utanaðkomandi og hlutlausir sérfræðingar til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu um framhaldið vegna gruns um einelti sem upp kom í æfingahópi félagsins í handbolta karla.
Sérfræðingarnir hafa nú skilað stjórn félagsins skýrslu þar sem meginniðurstaðan er þessi:
”Niðurstöður þessarar athugunar eru þær að ekki sé hægt að fullyrða að um einelti hafi verið að ræða skv. skilgreiningu þess í reglugerð nr. 1009/2015. Hins vegar er ljóst að neikvæð samskipti innan hópsins hafi verið til staðar um nokkurn tíma og komið niður á liðsheildinni og samskiptamáta liðsmanna”.
Skýrsluhöfundar telja “… jákvætt að ÍBV hafi tekið málið alvarlega og leitast við að koma því í farveg sem fyrst”.
Sérfræðingarnir leggja jafnframt fram tillögur til lausnar á þeim samskiptavandamálum sem urðu kveikjan að ofangreindri athugun – og sömuleiðis hvernig félagið skuli taka á málum af þessu tagi almennt í öllum flokkum félagsins. �?ær tillögur verða leiðbeinandi fyrir félagið í framhaldinu.
Stjórn ÍBV Íþróttafélags vill brýna fyrir fólki að varast rætni, illmælgi og sleggjudóma í tengslum við þetta viðkvæma mál.
Fyrir hönd handknattleiksdeildar ÍBV,
Karl Haraldsson formaður
Fyrir hönd aðalstjórnar ÍBV íþróttafélags,
Íris Róbertsdóttir formaður