Á mánudaginn sendi Vestmannaeyjabær umsögn sína á frumvarpi þar sem mælst er til að lög um orlof húsmæðra verði afnumin. Umsögnina í heild má sjá hér:
Umsögn um frumvarp til laga um orlof húsmæðra (afnám laganna) 119. mál
Með umsögn þessari mælist Vestmannaeyjabær til þess að frumvarpið verði samþykkt og lög um orlof húsmæðra því lögð niður.
Máli sínu til stuðnings bendir Vestmannaeyjabær á að upphafsorð 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hljóðar svo: Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í ákvæðinu eru taldar upp nokkrar leiðir til að ná fram markmiði laganna, m.a. að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins auk þess að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru til að ná fram markmiði laganna er að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Löggjafinn gerir því ráð fyrir að sum úrræði sem gripið er til nýtist konum fremur en körlum. Með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar er þó augljóst að slíkum úrræðum verður eingöngu beitt þegar nauðsyn krefur til og að rétta hlut kvenna þar sem á hefur hallað. Verður ekki séð að lög um orlof húsmæðra uppfylli þetta skilyrði enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um. Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar.
Vestmannaeyjabær bendir einnig á að í kjölfar fyrirspurnar Vestmannaeyjabæjar árið 2007 svaraði Jafnréttisstofa því til að hún teldi líkur á að lög um orlof húsmæðra teljist brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stofan áréttaði þó jafnframt að það sé Alþingis að afnema hin umræddu lög.
�?á bendir Vestmannaeyjabær á að á fundi bæjarstjórnar kvenréttindadaginn 19. júní 2008 samþykkti bæjarstjórn ályktun þess efnis að skorað yrði á Alþingi að afnema lög um orlof húsmæðra og er það hér ítrekað. Í ályktun þess fundar, sem eingöngu var skipaður konum, sagði: Lög um að orlofsnefndir skipuleggi orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjái um rekstur orlofsheimila á kostnað bæjarins þykja tímaskekkja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja taldi þá að gildandi lög um húsmæðraorlof ekki vera í anda jafnréttis enda taka þau einungis til kvenna.
Að lokum minnir Vestmannaeyjabær á að 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um sjálfstjórn sveitarfélaga án þess að tilgreina nánar í hverju sjálfstjórnin felst. Hér er því fyrst og fremst um að ræða stefnuyfirlýsingu stjórnarskrárgjafans um að sveitarfélög skuli njóta sjálfstjórnar. Séð í því ljósi verður að telja brýnt að löggjafinn stígi varlega fram í löggjöf sem bindur hendur sveitarfélaga og slíkt sé fyrst og fremst gert í málum sem skipta þjóðarheildina máli. Á sama hátt er mikilvægt að löggjafinn sé vakandi fyrir því að afnema útelt lög þegar sá tími kemur að málefni séu hætt að skipta þjóðarheild máli.
Bæjarráð Vestmannaeyja er eins og bæjarstjórn einbeitt í vilja sínum að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Með það að leiðarljósi hvetur Vestmannaeyjabær til þess að lög um orlof húsmæðra verði afnumin.
Elliði Vignisson
bæjarstjóri