Akureyringar mættu sterkir til leiks og gerðu heimamönnum í ÍBV ansi erfitt fyrir þegar liðin mættust í Olís-deildinni í kvöld. Niðurstaðan var jafntefli, 22:22, eftir dramatískar lokasekúndur. Eyjamenn fóru illa að ráði sínu þegar um 40 sekúndur lifðu leiks og misstu boltann í hendur anstæðinganna sem tóku strax leikhlé. Í lokasókninni tókst hornamanni Akureyringa síðan að finna leið framhjá Stephen Nielsen í marki heimamanna og úrslitin ráðin.
Theodór Sigurbjörnsson var markahæstu í liði ÍBV með sjö mörk og varði Stephen Nielsen 12 skot í markinu.
FH er nú með pálmann í höndunum í baráttunni um deildarmeistaratitilinn en þeir lögðu granna sína í Haukum, 30:28, fyrir skemmstu. Ljóst er að ÍBV verður að vinna Val í síðustu umferðinni og stóla á að FH-ingar misstígi sig.