Samkvæmt reglugerð Samgöngustofu er aðeins lítið svæði á Heimaey þar sem leyfilegt er að fljúga drónum. Í reglugerðinni segir að óheimilt sé að fljúga drónum innan tiltekinna fjarlægða frá svæðamörkum flugvallar án leyfis frá rekstraraðila flugvallarins.
Ekki þarf sérstakt leyfi ef aðeins er flogið neðar en hæstu mannvirki í nágrenni flugferils drónans en óheimilt er að fljúga dróna hærra en í 130 metra hæð án sérstaks leyfis frá Samgöngustofu.
Gildandi takmörk um fjarlægð frá áætlunarflugvöllum eru tveir kílómetrar og samkvæmt því er heimilt að fljúga dróna án sérstaks leyfis í Stórhöfða, vestur á fjalli og í Miðkletti og Ystakletti og austast á Nýjahrauni.
Samgöngustofa hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegri umræðu um gerð reglna um dróna og fylgist vel með þeirri stefnumótun sem fer fram víðsvegar í heiminum. Drög að reglugerð um dróna, sem Samgöngustofa undirbjó, hefur verið birt hjá innanríkisráðuneytinu, sem óskað hefur eftir umsögnum um hana.