Síðastliðinn föstudag var haldið herrakvöld knattspyrnudeildar ÍBV í húsakynnum Kiwanisklúbbsins í Vestmannaeyjum og er ekki hægt að segja annað en að kvöldið hafi heppnast prýðisvel. Húsið opnaði um hálf átta og hófst borðhald skömmu seinna en á boðstólnum var fjölbreytt og glæsilegt hlaðborð að hætti Einsa Kalda og félaga eins og þeim er von og vísa. Eins og við mátti búast var mætingin mjög góð og ekki lausan stól að finna í húsinu.
Dagskrá kvöldsins var ekki síðri en þar má nefna kynningu leikmanna- hópsins, pílukastkeppni og happadrætti, að ógleymdum knattspyrnusérfræðingnum Gunnari á Völlum sem fór mikinn. Herramennirnir sem fjölmenntu á kvöldið kepptu sömuleiðis í spurningakeppni þar sem lítið annað komst fyrir en knattspyrna og er óhætt að segja að kappsemin hafi verið mikil.