Á fimmtudaginn í síðustu viku var alþjóðlegi Safnadagurinn en haldið hefur verið upp á daginn síðan árið 1977. Í ár var dagurinn undir yfirskriftinni: Söfn og umdeild saga: Að segja það sem ekki má segja í söfnum. Markmiðið var að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og opna fyrir umræðuna um hlutverk safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum.
Í tilefni dagsins var sagnfræðiprófessorinn Már Jónsson með kynningu á nýútkominni bók sinni, Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar. Í bók sinni nýtir Már áður óþekktar heimildir um brauðstrit fólks á örðugum tímum í Vestmannaeyjum og veitir þannig lesendum merkilega innsýn inn í líf Vestmannaeyinga um miðbik 19. aldar. Í kynningunni sýndi Már m.a. samanburð á skrám um eftirlátnar eigur látins fólks, allt frá niðursetningum yfir í kaupmenn, og var efnahagslegur munur oft og tíðum gríðarlega mikill. Einnig er fróðlegt að sjá áhrif ginklofans á samfélag Vestmannaeyinga en hann var einkar skæður á 19. öldinni og eru dæmi um að hjón hafi misst allt að 12 börn af 14 sökum hans.
Fundurinn var vel sóttur eins og við mátti búast og var súpa og brauð á boðstólnum, ásamt kaffi á eftir. Að kynningunni lokinni gaf Már sér síðan tíma í að svara spurningum viðstaddra og árita bækur. Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar er klárlega bók fyrir alla þá sem vilja fræðast og auka þekkingu sína á lífsháttum Vestmannaeyinga á 19. öldinni. Bókin er til sölu í Safnahúsinu og hjá Bóksölu stúdenta.