ÍBV og KR mættust í tíundu umferð Pepsi-deildar kvenna í gær þar sem Eyjakonur unnu góðan 0:2 sigur á heimakonum.
Fyrir leikinn voru KR-ingar í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig en ÍBV í fjórða sæti með 19 stig. Eins og kannski flestir vita voru Eyjakonur að spila á föstudaginn í Borgunarbikarnum og því hvíldin af skornum skammti miðað við lið KR-inga sem fékk viku til að skríða saman eftir fimm marka tap gegn Valskonur í umferðinni á undan.
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 25. mínútu leiksins en þar var að verki hin kanadíska Cloé Lacasse eftir sendingu frá Katie Kraeutner. Fram að þessu að hafði verið mikið jafnræði með liðunum. Fimm mínútum áður en flautað var til hálfleiks komst Kristín Erna Sigurásdóttir í upplagt marktækifæri en skot hennar geigaði. Staðan var því 0:1 þegar gengi var til búningsherbergja í hálfleik.
Strax á 53. opnuðu liðsmenn ÍBV vörn KR-inga upp á gátt en tilraun Kristínar Ernu rataði framhjá markinu. Nokkrum mínútum síðar þurfti Adelaide Gay að taka á honum stóra sínum í marki ÍBV en þá slapp Sigríður María Sigurðardóttir ein í gegn. Undir lok leiks voru heimamenn í KR komnir framarlega á völlinn til að freista þess að ná jöfnunarmarki en í staðinn tvöfaldaði Cloé forystuna fyrir ÍBV og úrslitin ráðin og fjórði deildarsigur ÍBV í röð staðreynd.
Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn en þá koma Valskonur í heimsókn.