Ráðstefna Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2017, Fiskúrgangur skilar hagnaði (Fish Waste for Profit) hefst á fimmtudaginn 14. september, en þetta er í annað skipti sem hún er haldin.
Ráðstefnan er helguð endur- og fullvinnslu fiskúrgangs, en þar eru Íslendingar framarlega í flokki um margt og hefur þróunar- og frumkvöðlastarf þeirra vakið ríkulega athygli víða um heim.
�?annig má nefna í umfjöllun CBC News fyrr á þessu ári nefndu kanadískir sérfræðingar á þessu sviði Ísland sem sérstaka fyrirmynd þróunarstarfs á þessum vettvangi, og þeirrar hugarfarsbreytingar sem er að verða varðandi hagnýtingu fisksins í heild sinni til framleiðslu vörutegunda fyrir tískuiðnaðinn, snyrtivöruiðnaðinn, lyfjaiðnaðinn og matvælaiðnaðinn, svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að ná fullum virðisauka úr öllu sjávarfangi.
Á meðal ræðumanna á Fish Waste for Profit-ráðstefnu IceFish má nefna forsvarsmenn nokkurra af helstu frumkvöðlafyrirtækjum hérlendis á sviði endurnýtingar fiskúrgangs í þágu m.a. lyfjaþróunar, fæðubótaefna og snyrtivöruiðnaðarins.
Á seinustu árum hefur líftækninni verið beitt með hugkvæmni til að nýta betur hráefni sem áður var kastað á glæ eða lítil verðmæti fengust úr, til að framleiða hágæða vörur með mikla möguleika á alþjóðamarkaði.