ÍBV sigraði Stjörnuna í síðasta leik Olís-deildar karla þetta árið þegar liðin mættust í gær, lokatölur 29:26.
Jafnræði var með liðunum í leiknum en þó nokkra lykilmenn vantaði í Eyjaliðið. Magnús Stefánsson og Elliði Snær Viðarsson eru enn frá vegna meiðsla og voru þeir Kári Kristján Kristjánsson og Grétar �?ór Eyþórsson báðir veikir og því ekki leikfærir. Samkvæmt Arnari Péturssyni var Róbert Aron Hostert einnig tæpur en kom þó við sögu í leiknum.
Sigurbergur Sveinsson og Theodór voru öflugir í sóknarleiknum og skoruðu samanlagt 16 mörk. Í vörninni fór hins vegar Andri Heimir Friðriksson fyrir sínum mönnum en hann hefur verið lykilmaður í varnarleik liðsins í vetur.
Eins og fyrr segir var þetta síðasti leikur ársins í Olís-deild karla og tekur nú við rúmlega mánaðar hlé vegna EM. Endar ÍBV árið í öðru sæti, tveimur stigum á eftir FH á toppnum og einu stigi á undan Val í þriðja sætinu. Næst mæta Eyjamenn Víkingi 31. janúar en þeir sitja í 11. og næst síðasta sæti deildarinnar.