Þann 20. Júlí nk. verða liðin 50 ár frá því fyrsta vatnsleiðslan var lögð milli lands og Eyja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafði lengi fjallað um þetta brýna hagsmunamál. Eftir árangurslausar bornanir eftir vatni var samþykkt í bæjarstjórn í júní 1965 að stofna Vatnsveitu Vm. og fylgdu í kjölfarið miklar framkvæmdir sem hófust vorið 1966, fyrst uppi á landi, síðan lagningu vatnsleiðslu milli lands og Eyja , koma upp dreifikerfi innanbæjar og bygging stórs vatnstanks upp af Löngulág. Framkvæmdum við þetta umfangsmikla verk lauk að mestu í apríl 1972.

Þessa merka atburðar í sögu byggðarlagsins verður minnst með útgáfu sérstaks 12 síðna Vatnsblaðs sem verður fylgiblað með Eyjafréttum sem verða í aldreifingu í vikunni. Þá verður haldið opið málþing í Safnahúsinu laugardaginn 7. Júlí kl. 14.00-16.00. Þar verður farið yfir söguna í stórum dráttum á myndrænan hátt og greint frá vatnsskorti eins og hann birtist húsmæðrum og fyrirtækjum í Eyjum áður en vatnið kom. Þá munu verktakar og eftirlitsmenn fara yfir sinn þátt og á eftir verður pallborð. Í lok dagskrár verður sýnd 20 mín. kvikmynd um lagningu fyrstu vatnsleiðslunnar til Eyja 1968 , sem danska fyrirtækið NKT framleiðandi leiðslanna lét gera á sínum tíma. Er þetta liður í dagskrá 45 ára goslokaafmælis. Fjögurra manna áhugahópur skipaður þeim Arnari Sigurmundssyni , Ívar Atlasyni, Stefáni Ó. Jónassyni og Kára Bjarnasyni hefur unnið að málinu og fékk Ómar Garðarsson til að stýra 50 ára afmælisblaði. Verkefnið hefur hefur fengið góðan stuðning frá Vestmannaeyjabæ og nokkrum fyrirtækjum og stofnunum til að létta kostnað undir útgáfuna og opna málþingið laugardaginn 7. Júlí kl. 14.00-16.00 á 2. hæð Safnahússins. Þetta er opið málþing og eru allir velkomnir.