Karlalið ÍBV í handbolta er bikarmeistari eftir þægilegan sigur á Fram, lokastaða 35:27.
Fram byrjaði leikinn betur og var með yfirhöndina lengi vel en áður en hálfleikurinn var úti voru Eyjamenn búnir að snúa taflinu við og var staðan 16:12 þegar flautað var til hálfleiks.
ÍBV gaf ekkert eftir í síðari hálfleik og jókst munurinn hægt og rólega eftir því sem á leið. Agnar Smári Jónsson var frábær í hægri skyttunni og sömuleiðis Aron Rafn Eðvarðsson í marki Eyjamanna. Svo fór að Eyjamenn fóru með átta marka sigur af hólmi og eru fyrir vikið bikarmeistarar ársins 2018.
Eins og fyrr segir var Agnar Smári öflugur en hann skoraði 12 mörk úr 13 skotum sínum í leiknum. Aron Rafn varði 17 skot í markinu.