Eitt af því sem gerir okkur að mönnum, þ.e.a.s. homo sapiens, er að við kunnum að nota ýmis tól, hluti eða tæki til að auðvelda okkur amstur hversdagsins. Hlutirnir geta verið einfaldir eða flóknir, allt frá ostaskerum yfir í tölvur, en flestir eiga þeir eitt hlutverk sem þeir eiga að sinna okkur til þæginda og vinnusparnaðar. �?að skiptir þó máli að hlutirnir búi yfir ákveðnum eiginleikum, aukahlutum eða fítusum svo þeir virki eins og þeir eiga að virka og sendum við jafnvel vissa hluti aftur til viðgerðar ef svo er ekki.
Klassískur áttaviti er vita gagnslaus ef hann finnur ekki norður og sama gildir um hjólbarðalausan bíl. Svo eru mörg tæki sem hreinlega virka ekki nema við áttum okkur á því hvernig við eigum að kveikja á þeim eins og t.d. hljómflutningstæki að ég tali nú ekki um blessuðu tölvuna.
Lykill er einn af þessum hlutum sem mörg okkar notum daglega en þrátt fyrir að lykill sé einfaldur gegnir hann tvenns konar hlutverki: Annars vegar að læsa og hins vegar að opna og þrátt fyrir að lyklar komi í flestum stærðum og gerðum þá hafa þeir nær allir einungis þessi tvö hlutverk.
Í vetur hafa 50 fermingarbörn sótt fræðslu um kristna trú hjá okkur í Landakirkju og það starf hefur sannarlega verið gjöfult og skemmtilegt. Margra áleitinna spurninga hefur verið spurt og ekki nærri því öllum svarað. �?að er dýrmætt fyrir okkur sem stöndum að fræðslunni, og reyndar fyrir alla þá sem koma að uppeldi barna, að gefa heimssýn þeirra gaum og það er verðugt fyrir okkur að halda í hið barnslega innra með okkur eins lengi og við getum.
Jáið góða sem fermingarbörnin segja í fermingunni sinni, og það já sem við sjálf sögðum í okkar eigin fermingu, og trúin sem þau og við játum er nokkurs konar lykill. Lykill sem opnar nýjar víddir í tilverunni og dýpkar lífið og merkingu þess og gerir það bærilegra.
Sá lykill opnar og sýnir opinberlega frammi fyrir okkur mannfólkinu hvaða stefnu er ætlað að taka í lífinu. Hvaða heimssýn, gildi, venjur og siði þau ætla að hafa að leiðarljósi í lífinu. Jáið sýnir að Jesús á að vera þeim hinn gagnlegi áttaviti í lífinu. Áttavitinn sem þau geyma alltaf með sér, misfyrirferðamikinn kannski á hinum ýmsu skeiðum lífsins, en þó alltaf gagnlegur fyrir hug þeirra og anda.
�?ennan áttavita höfum við öll í vasanum og það er kannski rétt að huga að honum, handfjatla hann og nota við þetta fagnaðarríka tilefni sem ferming barnanna er en þó kannski ekki síður við þann fögnuð sem lífið sjálft er.
Megi hinn lifandi Guð blessa fermingarbörnin hér í Vestmannaeyjum og fjölskyldur þeirra.