Á miðju kjörtímabili skapaðist töluverð umræða um húsmæðraorlof. Í tvö ár taldi meirihluti bæjarráðs ekki mögulegt að greiða út orlof til orlofsnefndar húsmæðra í Vestmannaeyjum og var ástæðan sögð sú að ekki væri til fjármagn til þess að leggja í þessi útgjöld. Stefán Jónasson, fulltrúi Eyjalistans í ráðinu, lét í bæði skiptin bóka að hann væri hlynntur því að gert væri ráð fyrir að þessi styrkur yrði greiddur út, enda lög um slíkt skýr og þau beri að virða.
Í maí 2017 varð hins vegar mikil breyting á afstöðu meirihlutans í bæjarráði. Eftir að kvenfélagið Líkn hafði ráðið til sín lögfræðing til þess að innheimta kröfu upp á 600 þúsund vegna orlofs húsmæðra sá meirihluti ráðsins að sér og samþykkti að greiða styrkinn. Í raun má segja að ótrúlegt sé að kvenfélagið Líkn hafi þurft að ráða til sín lögfræðing til að innheimta styrk sem félagið á rétt á samkvæmt lögum. En ákvarðanir eru oft á tíðum illskiljanlegar, því miður.
Höfuðið beit meirihlutinn svo af skömminni þegar kvenfélagið var síðan hvatt til þess að nýta styrkinn til góðgerðarmála. Samkvæmt landslögum á greiðsla af þessu tagi að fara í orlofsgreiðslur til kvenna en ekki í aðra hluti. �?annig að lögbundin greiðsla sem árið 2017 var tæpar 460 þúsund krónur, var orðin að rúmum 600 þúsundum vegna dráttarvaxta, vegna þess að meirihluti bæjarráðs sá sér ekki hag í því að fara að lögum.