Á fundi bæjarráðs í gær var rædd stofnun opinbers hlutafélags til að halda utan um rekstur Herjólfs. Fyrir bæjarráði lá álit endurskoðanda KPMG á áhrifum samnings um rekstur Herjólfs á rekstur sveitarfélagsins þar sem fram kemur að þau séu ekki með þeim hætti að ákvæði 66. greinar um miklar fjárfestingar og skuldbindingar eigi við í þessu tilviki. �?ví sé ekki þörf á sérstöku mati á áhrifum samningsins á fjárhag sveitarfélagsins. Bæjarráð fól bæjarstjóra að undirbúa stofnun opinbers hlutafélags og leggja nauðsynleg gögn fyrir bæjarstjórn svo fljótt sem verða má.