Því er haldið fram, nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar að Eyjalistinn sé of hliðhollur meirihlutanum og sé honum sammála í einu og öllu. Sumir ganga meira að segja svo langt að telja bæjarfulltrúum okkar þetta til ámælis, þeir séu í raun einungis leppir fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórn. Í raun er ekkert óeðlilegt við að þurfa að takast á við slíka umræðu, sérstaklega þegar hún er runnin undan rifjum andstæðinga okkar sem berjast nú við að afla sér fylgis og fara stundum frjálslega með staðreyndir.

Við skulum halda því til haga, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mál sem samþykkt hafa verið í bæjarstjórn hafa komið að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans. Þessi mál eru stór hagsmunamál fyrir bæjarbúa. Frístundakortið var lagt fram af bæjarfulltrúum Eyjalistans, dagvistunargjöld leikskólabarna voru lækkuð að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans, uppbygging íbúða fyrir fatlaða í Ísfélagshúsinu og þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Hraunbúðir eru allt mál sem Eyjalistinn hefur haft ofarlega á sinni stefnu og við ætlum að halda þeirri hagsmunagæslu áfram.

Maður veltir því fyrir sér hvað átt er við þegar Eyjalistinn er sagður hafa verið í of miklu slagtogi við meirihlutann. Að hlusta á það að 7-0 atkvæðagreiðslur bendi til þess að bæjarfulltrúar okkar séu veikburða í slagnum við meirihlutann er út í hött!

* Áttum við að berjast gegn því að ungmenni undir 16 ára fái ókeypis aðgang að sundlauginni?

* Hefðum við átt að leggjast gegn því að bærinn niðurgreiði skólamáltíðir í grunnskólanum?

* Hefðum við betur unnið gegn því að nemendum væru tryggð námsgögn án endurgjalds?

* Áttu bæjarfulltrúar okkar að standa í vegi fyrir stórkostlegum umbótum í samgöngumálum með samningi um rekstur Herjólfs í stað þess að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarbúa?

* Er það virkilega krafa á bæjarfulltrúa sem starfa í minnihluta að þeir verði ávallt á móti góðum og þörfum málum?

Ég frábið mér slíkan málflutning. Ef þetta er stemningin sem ríkir í herbúðum H-listans þá er ekki von á góðu frá þeirra fólki í bæjarstjórn. Við höfum viljað og við ætlum áfram að vinna að öllum góðum málum er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið. Við munum ekki fara í keppni það hver kemur fyrstur með góðar hugmyndir. Sjálfsdýrkun okkar er ekki á því stigi að við getum ekki sameinast um góð mál.

Njáll Ragnarsson