Kosningarnar fóru eins og þær fóru. – Það sem maður óttast að verði helstu afleiðingar þeirra er að myndast hafi vík milli vina; sárindi; kannski illindi. – Ef svo er þá er það einmitt það sem Vestmannaeyingar þurfa síst á að halda.
Þarf annars nokkuð að mynda meirihluta og þá minnihluta. Getur fólk ekki unnið saman sem ein heild í bæjarstjórn að málefnum Vestmannaeyja. – Nú eru flestallir bæjarfulltrúarnir úr Sjálfstæðisflokknum þannig að varla er mikill pólitískur ágreiningur milli þeirra. Og eftir því sem ég hef lesið og heyrt í Njáli Ragnarssyni þá er hann bara heilsteyptur flottur strákur sem ég held að allir geti unnið með. Og svo er Elliði hættur, sem var nú kannski ástæðan fyrir H-lista framboðinu.
Hvað er þá í veginum fyrir því að nú verði myndaður 7 manna  meirihluti/bæjarstjórn í Vestmannaeyjum sem fari með stjórnun bæjarins og ef einhver bæjarfulltrúi er ekki sammála einhverjum málum þá greiðir viðkomandi bara atkvæði samkvæmt því. Er það ekki allt í lagi?
– Og þetta, – að mér finnst, úrelta fyrirkomulag – að það þurfi meiri- og minnihluta í litlum bæjarfélögum, sem meira en allt annað þurfa á samstöðu að halda, ættum við Vestmannaeyingar að hafa sem liðna tíð.
Í síðustu bæjarstjórn voru mál oftast afgreidd 7-0 og það meira að segja í stórum málum, eru það ekki sterk rök fyrir þessum sjónarmiðum mínum.
Áfram Vestmannaeyjar
Gísli Valtýsson