Í tilefni af sjómannadeginum fékk blaðamaður í heimsókn til sín feðgana Magnús Ríkarðsson skipstjóra og Ríkarð Magnússon stýrimann á Breka VE 61. Fyrir daga Breka voru þeir feðgar á Drangavík en með tilkomu hins nýja togara sameinaðist hluti áhafna Drangavíkur, Jóns Vídalíns og Gullbergsins en tveir síðarnefndu bátarnir hafa verið seldir úr landi. Heimkoma Breka þann 6. maí sl. fór líklega ekki fram hjá mörgum en rúmum sex vikum fyrr lagði skipið frá bryggju í borginni Shidaho í Kína ásamt systurskipi sínu Páli Pálssyni. Smíði skipanna gekk ekki snurðulaust fyrir sig og sökum þess tafðist afhending þeirra svo mánuðum skipti. Í viðtalinu fara þeir Magnús og Ríkarð yfir ferðalagið frá Kína til Íslands en siglt var m.a. suður fyrir Singapúr í steikjandi hita, í gegnum þekkt hættusvæði sjórána milli Sómalíu og Jemen í fylgd þungvopnaðra öryggisvarða og í gegnum Súesskurðinn þar sem sígarettukarton og spilltir embættismenn komu mikið við sögu.
Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Eyjafrétta og í vefútgáfu blaðsins.