Íslenski þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur sl. sunnudag. Hátíðarhöld voru með hefðbundnu sniði líkt og fyrri ár, fáni dreginn að húni og heimilisfólkið á Hraunbúðum heimsótt áður lagt var af stað frá Íþróttamiðstöðinni í skrúðgöngu. Á Stakkagerðistúni lék Lúðrasveit Vestmannaeyja nokkur vel valin lög, Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, flutti hátíðarræðu þar sem honum var m.a. tíðrætt um afrek Heimis Hallgrímssonar og íslenska landsliðsins í fótbolta. Að því loknu flutti fjallkonan hátíðarljóð en í ár var Thelma Lind Þórarinsdóttir í hlutverki hennar. Nýstúdentaávarp og fimleikasýning var að sjálfsögðu á sínum stað, að ógleymdu tónlistaratriði Unu Þorvaldsdóttur, Söru Renee og Jarls Sigurgeirssonar.

Myndir: Einar Kristinn Helgason
Myndband: Halldór B. Halldórsson