Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar er í Einarsstofu kl. 18:00 í dag. Höfðu Eyjafréttir samband við nýkjörna bæjarfulltrúa, sem flestir eru að stíga sín fyrstu skref í bæjarpólitíkinni og var spurningin; hvernig leggst kjörtímabilið í þig?

 

Helga Jóhanna Harðardóttir:
Tek fullan þátt á hliðarlínunni

„Kjörtímabilið leggst bara vel í mig. Vissulega hefði ég viljað hafa fengið tækifæri til þess að sitja sem bæjarfulltrúi en ég kem til með að taka fullan þátt á hliðarlínunni. Samstarfið hjá Eyjalistanum og Fyrir Heimaey lofar góðu og ég hef mikla trú á að þessi meirihluti komi til með að vinna vel saman á þessum 4 árum. Stefnumál og áherslur flokkanna eru mjög lík og þess vegna tel ég að það verði unnið að mörgum góðum málum á þessu kjörtímabili,“ sagði Helga Jóhanna Harðardóttir, varabæjarfulltrúi Eyjalistans þegar hún var spurð að því hvernig nýbyrjað kjörtímabil leggst í hana.

 

Elís Jónsson:
Fjölmörg tækifæri að gera eitt og annað

Elís Jónsson á H-lista er nýr í þessu eins og Helga Jóhanna og lýst vel á verkefnin framundan. „Ég hef bara allt fínt að segja um nýtt kjörtímabil. Það eru fjölmörg tækifæri til að gera eitt og annað á næstu fjórum árum. Að byrja í bæjarstjórn er mjög áhugavert og spennandi. Ég hef verið mikill áhugamaður um bæjarmálin og sú staða að vera kjörinn í bæjarstjórn gefur mikla möguleika,“ sagði Elís sem er þakklátur fyrir þetta tækifæri.

Helga Kristín Kolbeins:
Að starfa í minnihluta er meiri áskorun en að vera í meirihluta

„Ég og félagar mínir horfum björtum augum til næstu fjögurra ára, bæjarsjóður er með sterka stöðu en dæmin hafa sýnt að það þarf ekki langan tíma til að snúa henni á verri veg.
Í öldrunar- félags- og skólamálum eru allt upp á sitt besta og brátt verður tekin í notkun viðbygging á Hraunbúðum sem mun gjörbreyta aðstöðu þar. Félagsþjónustan stendur á styrkum stoðum og ég trúi ekki öðru en viðbygging og færsla Tónlistarskólans við Hamarsskóla verði að veruleika,“ sagði Helga Kristín Kolbeins, önnur á lista Sjálfstæðisflokk og kemur ný inn í bæjarstjórn.
„Búið er að koma af stað einum stærstu framkvæmdum í sögu bæjarfélagsins á sviði ferðaþjónustu, náttúrusafni og lundaathvarfi auk tilvonandi Eldfjallabaðlóns. Þetta mun styrkja atvinnulíf, fræðastörf og gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleyft að bjóða upp á þjónustu í mun lengri tíma af árinu en nú er.“
Helga Kristín segir Vestmannaeyjar standa á sterkum stoðum í dag, og eigi framtíðina fyrir sér með frábærum samningi um rekstur Herjólfs. „Við í minnihlutanum munum gæta þessarar framtíðarsýnar næstu fjögur árin þó að það geti verið á brattan verði að sækja.
Ég hef kynnst á síðustu vikum ótrúlegum fjölda öflugs fólks sem ber í brjósti sömu sýn og ég og félagar mínir. Að starfa í minnihluta er meiri áskorun en að vera í meirihluta. Við þurfum að spyrja krefjandi spurninga og skoða gagnrýnum augum þær ákvarðanir sem verða teknar, þar er ég á réttum stað. En umfram allt munum við gera okkar besta til að tryggja að Vestmannaeyjar og íbúar Eyjanna verði í fremstu röð á öllum sviðum hér eftir sem hingað til,“ segir Helga Kristín að lokum.
 …

Trausti Hjaltason:
Stóðu ekki við eigin áform um bæjarstjóra

Trausti Hjaltason er einn af reynsluboltunum í bæjarstjórn en skiptir um hlutverk eftir að hafa verið í meirihluta Sjálfstæðisflokksins í tvö kjörtímabil. Er hann í þriðja sæti listans núna.
„Stóru verkefni kjörtímabilsins verða að standa við nýja samninginn varðandi rekstur Herjólfs með allri þeirri þjónustuaukningu sem honum fylgir. Fylgja eftir þeim framkvæmdum sem búið er að koma í gang og halda áfram að þrýsta á ríkisvaldið varðandi samgöngur og heilbrigðismál,“ segir Trausti.
Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir traustan rekstur og ábyrga fjármálastjórnun sem er grunnurinn að þeirri miklu þjónustuaukningu sem hefur orðið á undanförnum árum. „Við munum áfram reyna að standa vörð um reksturinn og fjármálin ástamt því að koma góðum málum á framfæri. Eitt af verkum fyrsta bæjarstjórnarfundar verður að skipa í ráð og nefndir og þar búum við hjá Sjálfstæðisflokknum að því að eiga mikið af reynslumiklu fólki sem hefur setið áður í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins og hefur tekið virkan þátt í starfinu á undanförnum árum.“
Trausti segir að staðan sé ný og miklar breytingar framundan eftir afar sérstaka atburðarás í kringum myndun nýs meirihluta. „Þar sem bæði H- og E-listinn stóðu ekki við sín orð, hvorki gagnvart okkur né kjósendum. Það kom fram hjá H-listanum fyrir kosningar að framboðið ætlaði að hafa það þannig að oddvitin þeirra mundi stíga til hliðar ef hún yrði bæjarstjóri, það liggur nú fyrir að það verður ekki staðið við það. Eyjalistinn var með það sem forgangsmál að auglýsa eftir bæjarstjóra og ætla þau þrátt fyrir að hafa verið í afar góðri samningsstöðu, að gefa það eftir gagnvart sínum kjósendum sem kom mér verulega á óvart,“ segir Trausti að endingu.
 …

Hildur Sólveig: 
Hlakka til að bretta upp ermarnar og halda áfram í uppbyggingarvinnu

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, er þrátt fyrir ungan aldur annar reynsluboltinn í nýrri bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar. Skipar hún oddvitasætið á lista Sjálfstæðisflokksins sem nú er í minnihluta eftir að hafa verið í meirihluta frá árinu 2006.
„Ég hef eðli málsins samkvæmt blendnar tilfinningar gagnvart næsta kjörtímabili. Fyrir það fyrsta þá þykir mér persónulega leitt að hafa misst úr brúnni okkar öfluga málsvara og baráttuhund, Elliða Vignisson og vil nýta tækifærið og þakka honum kærlega fyrir hans miklu óeigingjörnu vinnu og frábært samstarf í gegnum árin og óska ég honum góðs gengis í framtíðarverkefnum,“ segir Hildur Sólveig.
„Ég vil jafnframt óska öllum nýkjörnum bæjarfulltrúum innilega til hamingju með kjörið og vona að samstarfið verði árangursríkt þar sem hagsmunir Vestmannaeyjabæjar og íbúa verða í fyrirrúmi.“
Hún segir að nýtt kjörtímabil sé nú þegar orðið sögulegt þar sem meirihluti bæjarfulltrúa eru konur en það hefur ekki gerst áður í sögu Vestmannaeyjabæjar. „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem búa að mikilli og dýrmætri reynslu við stjórnun sveitarfélagsins finna til ábyrgðar sinnar í því ljósi og munu án efa leggja hjarta sitt og sál í að verja þá góðu stöðu sem bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar hafa í gegnum árin lagt mikla og óeigingjarna vinnu við að koma bæjarfélaginu í.
Framundan eru virkilega spennandi verkefni enda uppbyggingin í samfélaginu með eindæmum, með komu Merlin Entertainment, byggingu nýrra þjónustuíbúða fyrir aldraða og fatlaða og svo auðvitað það sem allir hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, koma nýs Herjólfs í haust og rekstur sveitarfélagsins á ferjunni með þeirri gríðarlegu þjónustuaukningu sem þeim samning fylgdi.
Ég hef fulla trú á að þessi góðu verkefni ásamt hinni miklu athafnagleði í atvinnulífi Vestmannaeyinga muni koma til með að vænka hag Vestmannaeyja enn frekar á næstu árum. Verður virkilega gaman að fylgjast náið með framvindunni. Ég hlakka persónulega til að bretta upp ermarnar og halda áfram að taka þátt í uppbyggingarvinnunni fyrir þetta magnaða samfélag,“ sagði Hildur Sólveig að endingu.