Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum virðir úrskurð kjörnefndar og mun ekki áfrýja málinu til Dómsmálaráðuneytisins. Óumdeilt er að utankjörfundaratkvæðin bárust í hendur kjörnefndarfulltrúa fyrir kl. 22:00 um 20 metrum fyrir utan kjörstað. Þau eru dæmd ógild þar sem þau voru ekki komin inn í hús fyrr en 10-20 sekúndum síðar, ekki var búið að læsa hurðinni á kjörstað. Það er bagalegt að vilji kjósandans nái ekki fram að ganga og ljóst að eðlilegt var að láta reyna á rétt kjósandans til að ná sínu fram enda lá ljóst fyrir að atkvæðin voru að koma alla leið frá höfuðborginni við erfiðar aðstæður.

Það er landsbyggðarmál að laga þann hluta kosningalöggjafarinnar sem snýr að utankjörfundaratkvæðagreiðslu að nútímanum á þann veg að kjósandinn þurfi ekki sjálfur að koma atkvæðum sínum landshlutanna á milli oft við erfiðar aðstæður. Ný tækni býður uppá þann möguleika að hægt væri að telja atkvæðin á því svæði sem tekið er við þeim og þeim upplýsingum komið áfram á réttan stað. Varðandi atkvæðabirtingu á samfélagsmiðlum þá væri eðlilegast að skýra þau lög betur, annað hvort með því að skerpa á því að myndbirting ógilti tvímælalaust atkvæði eða þá að afnema þetta ákvæði.
Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.