Síðasta sumar héldu fulltrúar frá Merlin Entertainments kynningarfund á verkefninu sínu sem núna er að verða að veruleika. En eins og flestir vita ætla tveir Beluga hvalir að flytja í Klettsvíkina í Vestmannaeyjum. Það hefur tekið langan tíma að landa öllum samningum í kringum verkefnið eins og gefur að skilja, en núna eru þeir allir í höfn. Eyjafréttir tóku viðtal við fulltrúa Merlinar í síðasta sumar, sem er vel við hæfi að birta aftur að hluta til núna. Einnig mælum við með myndbandi frá Merlin sem er hér að neðan.

„Þetta hefur tekið lengri tíma en við höfðum vonað en við er samt bjartsýn,“ sögðu þau James Burleigh og Christine Dure-Smith þegar blaðamaður spurði út í framvindu mála. „Öll okkar samtöl við fólk hérna á Íslandi hafa verið jákvæð en það eru engin fordæmi fyrir svona löguðu, þetta er fordæmið, þannig að allir vilja vera vissir um að hér sé rétt staðið að verki. Þetta verkefni kom mjög óvænt þannig allir þurfa að fá sínar skýringar á því og þurfum við að sýna þolinmæði,“ sagði James.

Á öllum þeim stöðum sem heyra undir Merlin er það stefna fyrirtækisins að notast við heimamenn eins og unnt er. „Jafnvel þótt við verðum með erlenda sérfræðinga til að byrja með þá viljum við þjálfa upp heimamenn svo þeir geti tekið við innan fárra ára. Í verkefni sem þessu, þar sem höfuð tilgangurinn er að gera það rétta í stöðunni, er mjög mikilvægt að samfélagið í heild sinni finnist það vera partur af verkefninu og verkefnið partur af þeim. Að því leiti finnst okkur Keikó verkefnið vera frábrugðið því sem við erum að gera þar sem þau voru frekar mikið út af fyrir sig. Við viljum vera staður fyrir Vestmannaeyjar frekar en fyrir Merlin,“ sagði Christine.

Hvað mun þetta verkefni gera fyrir Vestmannaeyjar sem samfélag? „Þetta er mjög áhugavert. Það sem við höfum orðið var við hingað til er að það er mjög fjölbreytt verslun hérna og mikil kunnátta sem við höfum þegar sett okkur inn í, hvort sem það eru verktakar eða aðrir þá eru allir tilbúnir til að vinna með okkur. Þetta mun svo sannarlega skila enn einu stóra verkefninu til bæjarfélagsins sem í augnablikinu er í miklum framkvæmdum eins og allir vita. En við verðum líka að fara varlega því verkefni á þessari stærðargráðu og með þennan tilgang sem á sér engin fordæmi mun vekja athygli og fá mikla umfjöllun. Eyjan hefur sínar takmarkanir stærðarlega séð, hún getur ekki tekið á móti milljónum ferðamanna og verðum við því að varðveita það sem hún hefur upp á að bjóða og taka réttar ákvarðanir,“ sagði James.
Mun taka tíma og þjálfun að venjast nýjum aðstæðum
Undir hvaða kringumstæðum þurfa hvalirnir að dvelja innandyra? „Við höfum augljóslega ekki fullkomlega tæmandi rannsóknir á veðráttunni frá degi til dags, hvort sem það er ölduhæð, vindur eða annað. Víkin er nokkuð vel varin frá náttúrunnar hendi og getur verið allt að fjögurra metra ölduhæð fyrir utan hana án þess að það hafi áhrif á víkina sjálfa. Aftur á móti geta verið sterkir straumar og hringiður neðansjávar í víkinni og fyrir hvíthvali sem hafa verið í sundlaugum tekur tíma og þjálfun að venjast þessum aðstæðum. Fyrstu veturna þurfa hvalirnir líklega að koma inn en það er alls ekki víst en við mundum aldrei gera neitt sem gæti stofnað lífi þeirra og heilsu í hættu. Þangað til þeir verða nógu sterkir munum við hafa varann á,“ sagði James og bætir við að það sé nokkuð auðveld aðgerð að koma hvölunum inn í hús. „Það verður auðvelt í samanburði við það að ferðast með hvalina í 35 klst. frá Shanghai.“
Þegar talið barst að því hvort hvalirnir myndu þrífast í klettsvíkinni benti Christine á að Keikó hafi plummað sig vel alveg þangað til hann átti að fara að lifa í villtri náttúru. „Þessi dýr eru mjög félagslynd og eru þessir tveir hvalir mjög vanir fólki. Ef bátur rennur upp að víkinni munu þeir vilja koma og rannsaka hvað sé um að vera og sömuleiðis þegar fólk er að klifra í fjöllunum, þeim þykir það áhugavert því hingað til hafa þeir nánast bara fengið að sjá öskrandi kínversk börn. Þetta mun vera fullkomlega frábrugðið því sem þeir hafa átt að venjast og alveg pottþétt betra.“
 
Hagsmunum Vestmannaeyjabæjar afar vel borgið
Á fundi bæjarráðs í byrjun maí lá fyrir leigusamningur við „The Beluga building company“ sem er í eigu Merlin og stofnað til að halda utan um fasteignarekstur þess í Vestmannaeyjum.
Samningurinn sem er til 20 ára gerir ráð fyrir því að fyrirtækið leigi tæplega 800m2 á jarðhæð Fiskiðjunnar að Ægisgötu 2 af Vestmannaeyjabæ. Það til viðbótar er gert ráð fyrir að fyrirtækið byggi um 800m2 hús þar sunnan við og tengi við hið leigða rými með tengibyggingu.
Leigusamningurinn gerir ráð fyrir því að fyrirtækið komi upp nýju og glæsilegu fiska- og náttúrugripasafni í Fiskiðjunni þar sem lunda og hvölum verður gert sérstaklega hátt undir höfði. Áætlaður stofnkostnaður þeirra gæti legið nærri 500 milljónum og hefur Vestmannaeyjabær enga aðkomu að fjármögnun verkefnisins. Leigusamningurinn gerir ráð fyrir því að velji leigutaki að hætta starfsemi þá mun Vestmannaeyjabær eignast safnið og allt tilheyrandi honum að kostnaðarlausu. Leiguverðið er um 190.000 á mánuði (50% afsláttur veittur í 5 ár) auk hluta af tekjum fari þær yfir 125 milljónir á ári. Bæjaráð samþykkti samningin í gær. Í bókun frá bæjarráð er sagt að þau fagni þessum samningi og telja að með honum séu hagsmunum Vestmannaeyjabæjar afar vel borgið.