Allt í heiminum er hverfult og eru breytingar óhjákvæmilegur hluti af lífi okkar allra. Þær geta ýmist verið jákvæðar eða neikvæðar og þar ræður mestu hugarfar okkar gagnvart þeim. Árangursríkast er þegar maður ákveður sjálfur að breytast. Erfiðar getur oft reynst að taka þátt í ákvörðunum sem einhver annar tekur. Að ákveðja að breytast er val en það er að neita að breytast sömuleiðis.
Ekki er hægt að segja annað en að landslagið til útgáfu fréttablaðs sé breytt á Íslandi sem og annarstaðar í heiminum frá því sem var fyrir 45 árum þegar Fréttir, síðar Eyjafréttir, komu fyrst út. Með tilkomu internetsins og þá sérstaklega fréttamiðla er krafan orðin sú að fréttir séu sagðar um leið og þær gerast. Upp er komin kynslóð sem varla snertir blöð heldur les allt af skjá. Auglýsendur horfa því sífellt meira og meira til netsins sem sinn aðal vettvang.  Þetta ásamt fleiru eins og aukinn prent- og póstkostnaður gerir rekstrargrundvöll lítils fjölmiðils úti í Vestmannaeyjum mjög óstöðugan. Samdráttur auglýsingatekna sem og í fjölda áskrifenda hefur gert það að verkum að blaðið hefur verið rekið með töluverðum halla undanfarin ár. Eingöngu einstakur vilji og góðvild eigenda til að halda úti því samfélagsverkefni sem Eyjafréttir eru er ástæða þess að blaðið lifir enn.
En nú er svo komið að það dugir ekki lengur til. Það er því eingöngu tvennt í stöðunni. Hætta útgáfunni eða endurhugsa hana.

Með þetta í huga kynnum við breytingar á útgáfuformi Eyjafrétta. Fyrir utan hina augljósu breytingu á útliti og stærð blaðsins sem ber að líta í þessu tölublaði mun útgáfutíðni blaðsins gjörbreytast. Blaðið mun koma út að minnsta kosti einu sinni í mánuði, í upphafi hvers mánaðar. Blaðið mun vera hugsað meira sem tímarit og verður þannig uppbyggt. Skemmtileg viðtöl og frásagnir af Vestmannaeyingum og ýmist efni Eyjunum viðkomandi. Mun vera lagt upp með að blaðið verða stórt og myndarlegt en á sama tíma létt og skemmtileg lesning. Blaðið verður sem áður áskriftarblað. Til hliðar við blaðið verður svo áfram vefurinn Eyjafrettir.is. Þar verður mikið bætt í og verður enn stærri hluti af honum eingöngu fyrir áskrifendur. Bætt verður í notkun á myndböndum og fjölda mynda af viðburðum í Eyjum. Þar að auki verður blaðið aðgengilegt áskrifendum á netinu. Sagðar verða fréttir um leið og þær gerast á vefnum og viðtöl unnin beint á vefinn óháð útgáfu blaðsins og þá eingöngu aðgengileg áskrifendum. Sem sagt Eyjafrettir.is verður að meira leyti en nú er áskriftarvefur. Hægt verður að skrá sig áfram með Facebook líkt og verið hefur en við bætist einnig möguleginn á að nota Google/Gmail aðgang.

Þrennslags áskriftarleiðir verða í boði. Í fyrsta lagi eingöngu vefáskrift á kr. 1.000 á mánuði. Í annan stað blaðið heim að dyrum (innanbæjar) og aðgangur að vefnum á kr. 1.300.  Og í þriðja lagi blaðið með póstinum og aðgangur að vefnum á kr. 1.500 á mánuði.