Íslenska kvenna­landsliðið í hand­knatt­leik, skipað leik­mönn­um 20 ára og yngri, er komið áfram í 16-liða úr­slit heims­meist­ara­móts­ins sem nú fer fram í Debr­ecen í Ung­verjalandi. Þær höfðu betur í gær gegn Síle 23:22, í lokaum­ferð riðlakeppn­inn­ar á heims­meist­ara­mót­inu. Sandra Erlingsdóttir leikmaður ÍBV skorði sex mörk í leiknum í gær.

Ísland endaði í þriðja sæti B-riðils og mæt­ir Nor­egi í 16-liða úr­slit­um keppn­inn­ar á morg­un klukk­an 16:30 að ís­lensk­um tíma.

„Það leggst mjög vel í mig að mæta Nor­egi í 16-liða úr­slit­un­um. Eft­ir að hafa séð loka­leik­inn hjá Nor­egi og Ung­verjalandi í A-riðli þá er ég hálf­feg­in að þurfa ekki að mæta Ung­verjalandi. Ég tel okk­ur eiga góða mögu­leika gegn norska liðinu en þetta verður engu að síður mjög erfitt verk­efni,“ sagði Hrafn­hild­ur Ósk Skúla­dótt­ir, ann­ar þjálf­ari liðsins, í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær­dag. „Ef við klár­um okk­ar leik gegn Nor­egi mæt­um við að öll­um lík­ind­um Frökk­um í átta liða úr­slit­um. Sama hvaða mót­herja við fáum, þá erum við alltaf litla liðið í þess­ari keppni, hér eft­ir. All­ir hérna úti bú­ast við því að við séum að fara að tapa fyr­ir Nor­egi þannig að við höf­um allt að vinna í keppn­inni og engu að tapa.“