Fyrstu kosningar til bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum voru haldnar árið 1919. Núna, 99 árum seinna er fyrsta konan að setjast í bæjarstjórastólinn. Ég mælti mér mót við nýjan Bæjarstjóra í huggulegu horni við höfnina til þess að fara aðeins yfir málin og verkefnin sem framundan eru. Íris Róbertsdóttir var ráðin bæjarstjóri Vestmannaeyja í síðustu viku og eru verkefnin framundan mörg og krefjandi. Næstu ár leggjast vel í hana og er hún full þakklætis fyrir það traust sem henni er sýnt og ber hún mikla virðingu fyrir því starfi sem hún hefur núna tekið við.

Okkur var kennt mikið og mér var alltaf sagt að ég gæti gert allt
Íris er fædd í janúar árið 1972 og er frumbuður foreldra sinna, þeirra Svanhildar Gísladóttur og Róberts Sigmundssonar og er hún því elst af fimm systkinum. Hún minnist æskunnar af mikilli hlýju og gleði „Ég man fyrst eftir mér á Vestmannabrautinni, en þangað fluttum við eftir gos. Lífið var mjög fjörugt. Við systurnar erum fæddar með stuttu millibili og svo koma bræður okkar til sögunnar aðeins seinna. Við systur viljum meina að við höfum ekki alveg fengið sama uppeldi og bræður okkar; við fengum agann en þeir dekrið. En við vorum mjög heppin, okkar var kennt mikið og mér var alltaf sagt að ég gæti gert allt. Pabbi var töluvert varkárari en mamma og var hræddari við að leyfa okkur hlutina en það var mamma sem gaf leyfið. Ég hefði til dæmis ekki lært að spranga ef pabbi hefði fengið að ráða,“ sagði Íris glottandi þegar hún minnist góðra tíma úr æsku.

Hrönn systir fyrsta barnið sem skírt var í Landakirkju eftir gos
Íris var nýorðin eins árs þegar gosið hófst árið 1973, móðir hennar Svanhildur var gengin sjö mánuði á leið þennan janúar mánuð. „Við komum mjög snemma tilbaka eftir gos. Það var allt enn á kafi hérna en mamma vildi bara drífa sig heim með fjölskylduna. Pabbi var smiður og það var nóg að gera þannig þeim fannst ekkert annað í stöðunni en að drífa sig sig aftur heim.“ Eins og áður segir var Hrönn systir Írisar aðeins nokkra mánaða þegar fjölskyldan flytur tilbaka heim eftir að gosinu lauk. Þegar fjölskyldan var komin heim vildi Svanhildur skíra Hrönn sem fyrst. „Mamma er mjög kirkjurækin og vildi að barnið yrði skírt sem fyrst og gekk það eftir. Hrönn var því fyrsta barnið sem var skírt í Landakirkju eftir að gosinu lauk. Myndirnar sem eru til af okkur við skírnina fyrir utan kirkjuna eru vægast sagt sérstakar, allt á kafi í ösku og svart um að litast, “ sagði Íris.

Víðtæk reynsla
Íris hefur nánast alla tíð búið í Vestmannaeyjum og er gift Eysteini Gunnarssyni og eiga þau tvö börn, Róbert Aron og Júníu.
Íris fór sem au-pair til Bandaríkjanna áður en hún fór í framhaldsskóla. „Það var mjög ævintýralegt ár og mikil og góð reynsla sem ég öðlaðist þar.“ Eftir það ár lá leiðin í Menntaskólan við Hamrahlíð og ætlaði Íris sér að klára stúdentinn þar. Hún kláraði reyndar aðeins ár í MH, því hún kynntist eiginmanni sínum Eysteini á Þjóðhátíð og ákvað í kjölfarið að koma heim og klára stúdentinn við Framhaldsskólan í Vestmannaeyjum sem að hún gerði.

Íris er kennara menntuð og stundaði það nám í fjarnámi frá KÍ ásamt góðum hóp kvenna. „Þetta er árið 2000 og ég byrja kenna um leið og gerði það samhliða náminu. Hélt svo áfram að námi loknu og var kennari við grunnskólann í tæp 15 ár.“ Síðustu ár hefur Íris leitað á önnur mið og sagði starfi sínu lausu sem fjármálastjóri Leo fresh fish, nú þegar hún tók við sem bæjarstjóri. Íris hefur einnig setið í stjórnum fyrirtækja ásamt því að starfa fyrir ÍBV Íþróttafélag í fimm ár, fyrst sem varaformaður og svo sem formaður félagsins. „Ég hef verið virk í félagsstörfum í mörg ár og eins og flestir vita tók ég virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og sat þar í stjórnum og nefndum. Einnig tók ég þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2009; bauð mig fram í fjórða sætið og náði því. Ég var varaþingmaður það kjörtímabil og sat talsvert á þingi og öðlaðist þar dýrmæta reynslu,“ sagði Íris.

Það stóð alltaf til hjá Írisi að fara í næsta prófkjör hjá flokknum og halda áfram. „Þegar kom að ákvörðun um prófkjör var pabbi hvað veikastur. Hann hafði greinist með MND og sjúkdómurinn ágerðist mjög hratt á þessum tíma.

Þegar skila þurfti inn þátttökutilkynningu fyrir prófkjörið vorum við að kistuleggja pabba og þarna gekk auðvitað fjölskyldan framar öllu öðru. Ég skilaði aldrei inn tilkynningu um þátttöku í prófkjörinu,“ sagði Íris.

Ekki hægt að taka þessu lífi sem sjálfsögðum hlut
Eins og áður segir greinist pabbi hennar Írisar með MND sjúkdóm sem er taugahrörnunarsjúkdómur. „Pabbi var mjög lengi að fá greiningu og svo þegar hún loksins kom veikist hann hratt og undir lokin ágerðist sjúkdómurinn miklu hraðar en við héldum að yrði raunin. Þetta var mjög erfiður tími og þegar greiningin var loksins komin fórum við á teymisfund þar sem okkur var ráðlagt að gera allt sem okkur langaði gera saman, sem við gerðum.“ Íris sagði að lengi hefði fjölskyldan frestað því að fara öll saman einhvert, en núna var það ekkert í boði lengur. „Pabba langaði svo að við færum öll saman til Berlínar og það gerðum við og áttum yndislega daga þar saman. Við fórum saman í réttir í sveitinni. Pabbi átti hús með öðrum uppi í Hemru, og hann langaði svo að við fengjum að upplifa réttirnar með öllum börnunum okkar.“

Þetta var erfiður tími fyrir fjölskylduna en þau nýttu tíman eins vel og þau gátu. „Eins ömurleg og þessi veikindi voru fengum við samt tækifæri til að segja allt sem við vildum segja og gera hluti sem okkur langaði til að gera saman. Það fá ekkert allir tækifæri til þess og ég er afar þakklát fyrir að hafa getað sagt pabba allt sem ég vildi segja honum,“ sagð Íris og bætti við að það sé ekki hægt að taka þessu lífi sem sjálfsögðum hlut.

Langt mikið upp úr því að rækta tengslin við fólkið í kringum mig
Íris er mikil félagsvera og hefur stórt og gott tengslanet á bakvið sig. „Ég er mjög heppin og á frábært tengslanet. Ég á vini og vinkonur sem ég hef átt síðan ég var mjög ung og svo á leiðinni hef ég eignast mjög góða vini bæði í gegnum vinnu, pólitíkina og íþróttafélagið. Í svona störfum þarf fólk að vinna mikið og náið saman til að ná settum markmiðum, og svo hef ég líka alltaf lagt mikið upp úr því að rækta tengslin við fólkið í kringum mig.“

Mikill samhljómur í öllu sem tengist fræðslumálum
En að bæjarstjórnarmálum, Fyrir Heimaey náði inn þremur mönnum í bæjarstjórn og var það fram úr þeirra björtustu vonum sagði Íris, en markmiðið var að ná inn tveimur. „Ég átti sannarlega ekki von á þessum úrslitum og þetta fór framúr okkar björtustu vonum. Við erum mjög þakklát fyrir það traust og þann stuðning sem við fengum.“
Aðspurð um samstarf nýs meirihluta í bæjarstjórn sagði Íris að fræðslumálin hafi verið sameiginlegur vendipunktur ásamt áherslum á lýðræðilseg vinnubrögð sem leiddi til þess að myndaður var meirihluti. „Það var mjög mikill samhljómur í öllu sem tengist fræðslumálum ásamt því að báðir aðilar voru sammála um þær breytingar sem þurfa eiga sér stað í stjórnsýslunni,“ sagði Íris.

Við viljum fá bæjarbúa nær og fá þá sem þátttakendur
Nú hafið þið talað mjög mikið fyrir bættu íbúalýðræði, hvaða breytingar eru Eyjamenn að fara sjá í þeim efnum? ‘’Eyjamenn eru að fara sjá að ef um stór og mikilvæg mál er að ræða, sem við teljum varða hagsmuni íbúa miklu, að þá eiga bæjarbúar sjálfir að geta komið að borðinu. Ekki bara í kosningum á fjögurra ára fresti. Herjólfsmálið er auðvitað gott dæmi um mál af þessu tagi. Bæjarbúar sjálfir eiga að koma að ákvarðanatöku í sínum stærstu hagsmunamálum. Við viljum einnig skoða að hafa opna nefndarfundi, þar sem er verið að kynna fyrir bæjarbúum hvað framundan er og bæjarbúar geta spurt og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Það eru ótal margar leiðir sem hægt er að fara í þessum málum. Við ætlum líka að gera upplýsingaflæðið mun betra. Þú átt að geta farið inná heimasíðu bæjarins og náð þar auðveldlega í þær upplýsingar sem þig vantar. Við ætlum líka að gera íbúagáttina að því sem hún á raunverulega að vera en þar vantar talsvert upp á. Í þessu þarf að vinna í vetur og gera breytingar.”

Ég stend og fell með þessari ákvörðun
Eins og flestir vita hefur Íris starfað með Sjálfstæðisflokknum í mörg ár og skráð í flokkinn síðan hún var 16 ára. Nú koma kaflaskil þar, aðspurð um fórnir í tengslum við að taka skrefið og ákveða að leiða bæjarmálafélagið sagði Íris að þegar ákvörðun er tekin er ekki hægt að líta til baka. „Ég held að það sé varla hægt að tala um fórn í þessu samhengi. Ég tók þessa ákvörðun sjálf vegna tiltekinna aðstæðna sem aðrir sköpuðu. Þetta var meðvituð og yfirveguð ákvörðun en jafnframt mjög erfið. Í Sjálfstæðisflokknum átti ég, og á, ekki bara samherja heldur líka vini.’’ Íris sagðist hafa trúa því að það væri hljómgrunnur fyrir því að gera hlutina öðruvísi. ‘’Það verður að vera í lagi að vera ósammála þeim sem situr við hliðina á manni og rökræða hlutina til niðurstöðu,“ sagði Íris.

Núna er rúmlega vika síðan Íris hóf störf sín sem bæjarstjóri Vestmannaeyja og hefur hún nýtt þessa rúmu viku í að hitta fólk og koma sér inní verkefnin sem framundan eru. „Ég geri mér fulla grein fyrir því hversu stórt og krefjandi starfið er, en ég hlakka til að takast á við það.“

Húsasmiðjan – almenn auglýsing