Í dag var gengið frá ráðningu fyrsta skipstjóra á nýjan Herjólf. Á grundvelli ráðningarferlis og ráðgjafar Capacent, sem sá um ferlið, var Ívar Torfason ráðinn í starfið. Mun Ívar fara til Póllandsum miðjan ágúst til að fylgjast með lokafrágangi smíði nýja Herjólfs og sigla honum heim til Eyja þegar að hann verður afhentur.

Um er að ræða fyrstu ráðningu skipstjóra en gert er ráð fyrir að ráða tvo skipstjóra til viðbótar á næstu dögum enda ráðgert að þrískipta áhöfn þurfi á skipið vegna fjölgunar ferða og keyrsluskipsins allt að 18 – 19 tíma á dag.

Þá var í dag einnig gengið frá ráðningu Svans Gunnsteinssonar í starf eins þriggja yfirvélstjóra, sem gert er ráð fyrir að ráðnir verði á skipið. Ráðning Svans er einnig gerð á grundvelli ráðningarferlis og ráðgjafar Capacent. Ráðgert er að Svanur fari til Póllands á næstu vikum til að fylgjast með lokafrágangi á smíði Herjólfs.

Vonast er til að á næstu dögum verði gengið frá ráðningum fleiri yfirvélstjóra.