Að morgni 11. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp á gatnamótum Strandvegar og Hlíðarvegar en þarna hafði bifreið sem ekið var norður Hlíðarveg verið ekið á bifreið sem ekið var vestur Strandveg með fyrirhugaða akstursstefnu suður Hlíðarveg. Ökumaðurinn sem olli óhappinu er grunaður um að hafa verið undir áhrifum lyfja við aksturinn. Engin slys urðu á fólki og lítið tjón varð á bifreiðunum.

Alls liggja fyrir fimm kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og má þar m.a. nefna of hraðan akstur og ólöglega lagningu ökutækja.

Undirbúningur fyrir Þjóðhátíð Vestmannaeyja er í fullum gangi og hefur verið fundað með fjölmörgum aðilum sem að hátíðinni koma og skipulagi í kringum hana. Undirbúningur gengur vel en útlit er fyrir að þjóðhátíðin í ár verði svipuð að stærð og sú sem haldin var í fyrra. Viðbragð verður sambærilegt og fyrri ár.

Unnið er að því að tengja löggæslumyndavélar í miðbæ Vestmannaeyja og á Básaskersbryggju þannig að allur búnaður og tengingar verði klárar og notkun hafin fyrir hátíðina.

Vinnulag lögreglu við miðlun upplýsinga verður eins og síðustu 3 ár þar sem allar upplýsingar um verkefni lögreglu verða veittar um leið og búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni og velferð mögulegra brotaþola.