Yfirvinnubann ljósmæðra tók gildi á miðnætti og er ljóst að það mun skapa óvissu og óöryggi í samfélaginu.  Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja mönnun ljósmæðra og skipulag fæðingaþjónustu á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Á Selfossi er mönnun með þeim hætti að tvær ljósmæður eru alla virka daga. Allar aðrar vaktir eru aðeins mannaðar með einni ljósmóður. Í Eyjum er þetta með þeim hætti að ein ljósmóðir er á dagvakt og á bakvakt á kvöldin og nóttinni. Yfirvinnubannið ætti því ekki að hafa nein áhrif nema til forfalla komi.

Í aðdraganda kjaradeilunnar hefur ein ljósmóðir sagt starfi sínu lausu hjá HSU. „Við lýsum yfir áhyggjum af því graf alveralega ástandi sem komið er upp í því þjónustuhlutverki sem Landspítali gengnir fyrir fæðingarþjónustu á landsvísu, með uppsögnum fjölmargra ljósmæðra þar. Víða hjá opinberum heilbrigðisstofnun er sár vöntun á fagfólki sem hefur bein áhrif á þjónustustig, gæði og uppbyggingu þjónustunnar á sama tíma og við glímum við áskoranir vegna fjölgunar íbúa, ferðamanna og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Stöðugleiki í mönnun er ein megin forsenda uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og áríðandi er að langvinnar kjaradeildur valdi ekki skaða með brottfalli úr mikilvægum störfum. Við eigum því  láni að fagna að hjá HSU er nánast full mönnun stöðugilda innan  allra heilbrigðisstétta. Það ástand er þó ekki sjálfgefið og mönnun starfa í heilbrigðisþjónustunni er í eðli sínu viðkvæm.  Við munum leggja okkar að mörkum við að tryggja samstarf um fæðingarþjónustu meðan þessi kjaradeila ljósmæðra og ríkis stendur yfir, sem og endranær,“ segir í tilkynningu á heimasíðu HSU.