KFS tók á móti Alafossi á Þórsvellinum í dag, laugardag kl. 16.00 í toppbáráttunni í C riðli 4. deildar karla.

Fyrri leikur liðanna endaði með óvæntum sigri Álafossar en Eyjamenn voru ekki á þeim buxunum í dag.

KFS skoraði fyrsta mark leiksins á 37. mínútu og var þar á ferðinni Daníel Már Sigmarsson sem skoraði sitt sjöunda mark í sumar. Þannig var staðan í hálfleik 1-0 KFS í vil.

Síðari hálfleikurinn fór hressilega af stað og eftir um 15 mínútna leik skoraði Íraninn Iman Sarbazi mark úr víti. Hann var svo aftur á ferðinni 10 mínútum síðar og kom KFS í 3-0.

Það var svo Hjalti Jóhannsson sem innsiglaði sigur KFS með marki á 89. mínútu. Lokatölur KFS 4-0 Álafoss.

KFS situr því á toppi C-riðils með 23 stig, einu stigi ofar en Árborg sem á þó leik til góða.